HVAÐ
er Réttinda-Ronja?

Réttinda-Ronja er verkefni og heimasíða sem er ætluð nemendum á háskólastigi á Íslandi við að leita upplýsingar um réttindi sín í námi og úrræði sem að standa til boða í náminu.

HVERJIR
geta notað síðuna?

Heimasíða Réttinda-Ronju er handa öllum nemendum en er sérstaklega ætluð fötluðum nemendum ásamt nemendum með sértæka námsörðugleika. Nemendur geta leitað að úrræðum sem standa þeim til boða í háskólum landsins við hin ýmsu svið náms, hvort sem að það snýr að próftöku eða aðgengi að byggingum og skólastofum.

Saga Réttinda-Ronju

Réttinda-Ronja er verkefni sem á uppruna sinn að rekja til ársins 2014 í Háskóla Íslands þegar hreyfihamlaður nemandi skólans leitaði til jafnréttisnefndar SHÍ. Nemandinn hafði ekki fengið þá þjónustu sem hann hafði þörf á og vissi ekki hvaða réttindi hann hefði til þess að krefjast hennar.

Það var svo vorið 2015 sem teymi samansett úr meðlimum jafnréttisnefndar SHÍ ásamt hugbúnaðarverkfræðinema hlutu styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna hjá Rannís til þess að rannsaka aðgengi að upplýsingum um réttindi fatlaðra nemenda og nemenda með sértæka námsörðugleika innan Háskóla Íslands. Starfshópurinn samanstóð af Sigvalda Sigurðarsyni, Rakel Rós Auðardóttur Snæbjörnsdóttur og Magnúsi Sigurðarsyni en Eiríkur Smith var umsjónamaður verkefnisins.

Farið var í ítarlega þarfagreiningu þar sem rýnihópaviðtöl voru tekin við nemendur Háskóla Íslands sem þurftu á sérstakri þjónustu að halda í námi þar sem spurt var út í reynslu þeirra, upplifun og hugmyndir um þjónustuna. Næst var unnið úr niðurstöðum viðtalanna og gæði þjónustunnar greind en einnig var skoðað hvort og hvernig fyrri rannsóknir samrýmdust niðurstöðunum. Jafnframt söfnuðust aðrar nauðsynlegar upplýsingar um þjónustu við nemendur og úrræði sem stæði þeim til boða.

Ákveðið var að safna upplýsingunum saman á vef tengdum Háskólanum, það er vef stúdenta þar sem um er að ræða réttindamál þeirra. Afraksturinn er vefsíðan sem að nú er að finna á http://www.student.is/ronja. Sú heimasíða á þó einungis við Háskóla Íslands.

Haustið 2016 kom upp sú hugmynd innan Jafnréttisnefndar LÍS að stækka Réttinda-Ronju og koma á laggirnar vefsíðu fyrir alla háskóla landsins. Vorið 2017 setti LÍS saman starfshóp með það markmið að útvíkka svið Réttinda-Ronju vefsins til allra háskóla landsins, svo hann geti nýst öllum íslenskum háskólanemum sem gætu notið ávinnings af notkun hans. Starfsteymið samanstóð af þeim Sigvalda Sigurðarsyni, Daníel G. Daníelssyni og Magnúsi Jóel Jónssyni. Sótt var um styrki og að lokum hlaut verkefnið styrk frá Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ).

Þann 3. desember var mikill fögnuður þar sem eitt af verkefnum LÍS hlaut hvatningarverðlaun ÖBÍ 2019. Þau eru veitt á alþjóðadegi fatlaðs fólks.

Ágústu Björg Kettler Kristjánsdóttir

Alex Giannakos
Grafísk- og vefhönnun

Það starfsteymi starfaði út sumarið 2017 og við tóku aðilar innan LÍS og síðar jafnréttisnefnd LÍS. Auglýst var eftir vefsstjóra og ákveðið var að ráða Pétur Húna Björnsson í það hlutverk ásamt því að fá Alex Giannakos til liðs við verkefnið til þess að sinna grafíska hönnun. Þeir ásamt Ágústu Björg Kettler Kristjánsdóttur unnu verkefnið fram á 2019. Verkefnið óx fiskur um hrygg og heilmikil vinna hefur verið lögð í gerð síðunnar. Verkefnið var allt unnið út frá samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í góðu samstarfi við ÖBÍ.

Alltaf má gera betur og þetta verkefni er þar með talið. Gagnagrunnurinn sem geymir upplýsingar um réttindi og úrræði í boði í háskólunum er byggður á spurningakönnun sem send var á alla háskóla landsins maí 2018. Sú könnun er eflaust ekki tæmandi og mögulega hefur eitthvað bæst við í úrræðum sem standa nemendum til boða en uppfærsla á gagnagrunninum á eftir að eiga sér stað þegar að nýjar hendur taka við verkefninu.

Það er von allra þeirra sem hafa staðið að verkefninu að vefurinn muni nýtast nemendum framtíðarinnar sem og þeim nemendum sem nema núna við háskóla landsins. Þá vonum við að þetta stuðli að gagnsæi í stjórnkerfinu sem og þrýstiafl að auknum réttindum og þjónustu við fatlað fólk og fólk með sértæka námsörðugleika.

Sérstakar þakkir:

Öryrkjabandalag Íslands, Stefán Vilbergsson, Þórdís Viborg, Landssamtök íslenskra stúdenta. Anna Kristín Jensdóttir, Stúdentaráð Háskóla Íslands, Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands, þar helst Hrafnhildur Kjartansdóttir og María Dóra Björnsdóttir. Allir þeir nemendur sem tóku þátt í rýnihópaviðtölunum og prófunum á heimasíðunni. Jafnréttisfulltrúar háskólanna og jafnréttisfulltrúar nemenda, Hanna Björg Sigurjónsdóttir, lektor í fötlunarfræðum, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, doktorsnemi í þýðingarfræðum, Sigfús Þór Sigmundsson, vefstjóri Háskóla Íslands, Sigurður Högni Jónsson, hjá RHÍ, Íslenska Flatbakan, Uno, Bæjarins Beztu, Ísbúðin Valdís og allir hinir sem hjálpuðu okkur við gerð verkefnisins.