Hér má finna ýmislegt sem snýr að fjárhagsmálum nemenda með fatlanir eða sértæka námsörðugleika. Þar má nefna sjóði sem hafa þann tilgang að styrkja nemendur, allt um tengsl námslána og örorku sem og einfalda leið til að borga lægri skrásetningargjöld vegna örorku.

Örorkubætur

Lægri skrásetningargjöld við HÍ vegna örorku

Eftirfarandi eru upplýsingar til að fá niðurfelld hluta skrásetningargjalda við Háskóla Íslands  vegna örorku.

 1. Þú getur komið með örorkuskírteinið þitt á þjónustuborð Háskólatorgs eða til Nemendaskrár og færð þar lækkun á skrásetningargjöldum: 55.000kr.
 2. Ef þú ert búin/nn að greiða full skrásetningargjöld (75.000kr) getur þú fengið eyðublað á þjónustuborði Háskólatorgs eða í Nemendaskrá. Með útfyllingu þess getur þú fengið endurgreiddan hluta skrásetningargjaldanna.

Rétt til örorkulífeyris eiga 75% öryrkjar á aldrinum 18–67 ára. Réttur til lífeyris er jafnframt háður búsetu.
Leiðbeiningar um að sækja örorkulífeyri má sjá hér: http://www.thekkingarmidstod.is/rettindi/almannatryggingar/ororkulifeyrir/styrkir/baetur/

Skerðing námslána vegna örorkubóta

Námslán skerðast ef árstekjur nemandans, þar með talið örorkubætur fara yfir frítekjumark, 930.000 kr.

Til að eiga rétt á námsláni þarf nemandi að ljúka að lágmarki 22 ECTS-einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri eða önn. Það er hægt að fá undanþágu ef nemandi nær ekki lágmarks námsframvindukröfum vegna orörku sinnar, lesblindu eða sértækra námsörðugleika allt að 13 ECTS- einingum (sjá skilyrði fyrir neðan). Þá miðast lánsréttur hans við lágmarkseiningafjölda.

Örorka. Grein 2.4.5

Skilyrði fyrir undanþágu er að fyrir liggi mat læknis á að læknisfræðileg örorka viðkomandi sé a.m.k. 75%. Sækja þarf sérstaklega um fyrrnefnda undanþágu til stjórnar sjóðsins. Umsókn þarf að fylgja læknisvottorð.

Lesblinda og aðrir sértækir námsörðugleikar. Grein 2.4.6

Skilyrði fyrir undanþágu er að fyrir liggi staðfest vottorð/greining um námsörðugleika sem staðfestir að námsmaður geti ekki skilað lágmarksnámsárangri vegna lesblindu eða annarra sértækra námsörðugleika að teknu tilliti til þess svigrúms sem skóli veitir viðkomandi námsmanni til ástundunar náms, próftöku o.s.frv. Þá skal einnig fylgja staðfesting skóla sama efnis. Sækja þarf sérstaklega um fyrrnefnda undanþágu til stjórnar sjóðsins.

http://lin.is/lin/UmLIN/Log_og_reglur/uthlutunarreglur.html

Greiningarsjóður Stúdentasjóðs

Allir stúdentar við Háskóla Íslands geta sótt um styrk ef þeir hafi farið í greiningu vegna sértækra námsörðugleika eða athyglisbrests/ofvirkni (ADD/ADHD) og fengið niðurstöður þaðan.

Ekki eru styrktar meira en ársgamlar greiningar vegna sértækra námsörðugleika eða athyglisbrests/ofvirkni (ADD/ADHD).

Úthlutunarnefnd greiningarstyrkja skal úthluta styrkjum einu sinni á hvoru misseri og er auglýst eftir umsóknum með tölvupósti og inni á UGLU með góðum fyrirvara.

Með umsókn um greiningarstyrk skal skila inn afriti af niðurstöðu greiningar um sértæka námsörðugleika eða athyglisbrests/ofvirkni (ADD/ADHD), upplýsingum um hver framkvæmdi hana ásamt afriti af reikningi vegna greiningarinnar. Umsóknin þarf að innihalda stutta greinargerð um umsækjanda ásamt helstu tengiliðaupplýsingum.Umsóknir skulu berast til skrifstofu S.H.Í. Umsóknaraðili, sem jafnframt er ábyrgðaraðili umsóknarinnar, ber ábyrgð á því að formlega sé tekið á móti umsókninni.

Umsóknum sem berast of seint sem og ófullnægjandi umsóknum verður sjálfkrafa vísað frá. Mögulegt er að leggja þær aftur fyrir við næstu úthlutun.

Úthlutun skal fara fram eigi síðar en 2 vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út.

Fari upphæðir samþykktra umsókna umfram heildarfjárhæð úthlutunar vegna greiningarstyrkja viðkomandi misseris skulu styrkir deilast hlutfallslega jafnt til allra styrkþega.

Þegar sótt er um greiningarstyrk er sótt um í gegnum Stúdentasjóð, liður F) í skjalinu hér að neðan.

http://www.sjodir.hi.is/sites/sjodir.hi.is/files/onnur%20skjol/Skjol/studentasjodur_umsoknareydublad_word_2014-2015.docx

ÞÚ GETUR!- styrkur til nemenda með geðrænan vanda

Markmið sjóðsins er að styrkja þá til náms sem orðið hafa fyrir áföllum eða hafa átt við geðræn veikindi að stríða. Þetta er námsstyrkur, eingöngu ætlaður til að greiða námskostnað en ekki framfærslu eins og mat og húsnæði.

Mikilvægt er að fylgjast vel með auglýsingum eftir umsóknum á vefsíðu ÞÚ GETUR!

http://www.thugetur.is/styrkir

Úthlutunarnefnd tekur einungis til umfjöllunar þær umsóknir sem fylgja eftirfarandi leibeiningum:

Umsókn á að vera einföld og ekkert sérstakt eyðublað er notað. Umsókn á að vera 2-4 síður og þarf að innihalda eftirfarandi:

 1. Nafn, heimilisfang, kennitölu, símanúmer og póstfang umsækjanda.
 2. Einfaldar upplýsingar um að umsækjandi hafi átt við geðræn veikindi að stríða.
 3. Umsókn skal unnin í samráði við meðferðaraðila og þarf vottorð frá lækni eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni að fylgja. Námið er hluti af eflingu og endurhæfingu.
 4. Upplýsingar um hvaða nám er stundað og í hvaða skóla.
 5. Fjárhagsáætlun um námið. Miðað skal við ákveðinn námsáfanga t.d. eina önn eða eitt námsár. Vinsamlegast tilgreinið einungis námskostnað.
 6. Umsókn og fylgisskjölum má skila rafrænt eða á pappír.
 7. Athugið vel að þetta er námsstyrkur, eingöngu ætlaður til að greiða námskostnað en ekki framfærslu eins og mat og húsnæði.

Umsókn á pappír skal skila til:

Ólafur Þór Ævarsson,

Forvarna og fræðslusjóður ÞÚ GETUR,

Lágmúla 5, 4. hæð.

108 Reykjavík.

Umsókn með tölvupósti sendist á olafur@stress.is. Gott er að setja í rúðuna Efni (Subject): Umsókn til ÞÚ GETUR!

Nánar um ÞÚ GETUR! hér: http://www.thugetur.is/

Þórsteinssjóður

Styrkir til blindra og sjónskertra nemenda við HÍ.

Þórsteinssjóður auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum.

Þórsteinssjóður er stofnaður af stjórn Blindravinafélags Íslands til minningar um Þórstein Bjarnason f. 3. desember 1900, stofnanda Blindravinafélags Íslands. Félagið var stofnað þann 24. janúar 1932 og varð það fyrsti vísir að félagi til hjálpar fötluðum á Íslandi. Þórsteinn Bjarnason helgaði líf sitt til hjálpar blindum og sjónskertum á Íslandi á 20. öld án þess að taka nokkru sinni laun fyrir heldur lagði félaginu til úr eigin vasa.

Blindravinafélag Íslands er elsta styrktarfélag fatlaðra á Íslandi og hefur það markmið að hjálpa og hlynna að blindu fólki á Íslandi. Einnig að vinna að útbreiðslu þekkingar á augnsjúkdómum meðal almennings og verndun sjónarinnar.

Tilgangur Þórsteinssjóðs er í fyrsta lagi að styrkja blinda og sjónskerta til náms við Háskóla Íslands. Í öðru lagi er markmið sjóðsins að efla rannsóknir á fræðasviðum sem aukið geta þekkingu á blindu og skertri sýn, einkum í félags- og hugvísindum

Í umsókninni þurfa eftirtalin atriði að koma fram:

 1. Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og netfang.
 2. Helstu atriði úr náms- og/eða starfsferli umsækjanda og námsárangur í framhaldsskóla eða háskóla eftir því sem við á.
 3. Hvaða nám viðkomandi stundar við Háskóla Íslands.
 4. Meðmæli frá kennurum og/eða atvinnurekendum.
 5. Áætlun um námsframvindu.

Hámarkslengd umsóknar er þrjár síður. Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórnin áskilur sér rétt til að veita fleiri en einum umsækjanda styrk, hafna öllum og/eða úthluta styrkjum með öðrum hætti.

Vakin er athygli á að heimilt er að sækja oftar en einu sinni um styrki úr Þórsteinssjóði.

Umsóknum skal skila sem viðhengi á netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands: sjodir@hi.is

Frekari upplýsingar um styrkveitingu og úthlutun er að finna á heimasíðu HÍ, www.hi.is og sjóðavef HÍ, sjodir.hi.is. Einnig hjá Helgu Brá Árnadóttur, verkefnastjóra styrktarsjóða og hollvina, helgab@hi.is , sími 525 5894.

Nánar um Þórsteinssjóð hér: http://sjodir.hi.is/thorsteinssjodur

Sótt af:

http://www.blind.is/frettir/2008/11/18

http://nshi.hi.is/thorsteinssjodur_auglysir_styrki_til_blindra_og_sjonskertra_nemenda_vid_hi

Námssjóður Sigríðar Jónsdóttur

Styrkir úr námssjóði Sigríðar Jónsdóttur eru veittir til öryrkja til hagnýts náms, verklegs eða bóklegs, svo og til náms í hvers konar listgreinum. Einnig er heimilt að styrkja þá sem vilja sérhæfa sig til starfa í þágu þroskaheftra.

Styrkjum úr Námssjóði Sigríðar Jónsdóttur er úthlutað í júní ár hvert. Auglýst er í maí eftir umsóknum.

Umsóknareyðublað

Fyrirspurnir má senda til Kristínar Margrétar Bjarnadóttur, í tölvupósti kristin (@)obi.is eða hafa samband í síma 530-6700.

http://www.obi.is/thinn-rettur/styrkir/nams–og-starfssjodir/nr/773